Nóg um að vera hjá íslenskum atvinnukylfingum í dag

Sjö íslenskir atvinnukylfingar leika í dag golf um allan heim á stærstu mótaröðum heims. Kylfingur.is hefur hér tekið saman hvaða kylfingar leika hvar og hvernig hægt er að fylgjast með skori keppenda.

Í Danmörku leika þrír kylfingar á Nordic Golf mótaröðinni, þeir Andri Þór Björnsson, Haraldur Franklín Magnús og Ólafur Björn Loftsson. Haraldur og Ólafur léku frábært golf á fyrsta hring mótsins sem fór fram á miðvikudaginn og eru í toppbaráttunni.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Í Frakklandi leika þær Guðrún Brá Björgvinsdóttir og Valdís Þóra Jónsdóttir. Um er að ræða mót á Evrópumótaröð kvenna en mótið er eins konar úrtökumót fyrir Evian Championship mótið, fimmta risamót kvenna. Mótið hófst í morgun, fimmtudag.

Hér er hægt að sjá stöðuna í Frakklandi.

Stærsta mót helgarinnar er án vafa Opna bandaríska mótið sem fer fram á Shoal Creek vellinum. Þar er Ólafía Þórunn Kristinsdóttir meðal keppenda en hún hefur leik klukkan 17:42 að íslenskum tíma. Ólafía er að leika í mótinu í fyrsta skiptið á ferlinum og er annar íslenski kylfingurinn frá upphafi sem leikur í þessu móti en Valdís Þóra keppti í fyrra.

Hér er hægt að sjá stöðuna á Opna bandaríska mótinu.

Að lokum er Axel Bóasson meðal keppenda á Áskorendamótaröðinni í golfi. Leikið er í Sviss að þessu sinni og hófst mót helgarinnar í morgun.

Hér er hægt að sjá stöðuna í Sviss.

Greint verður frá skori allra íslensku kylfinganna í dag þegar þeir hafa lokið leik.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is