Myndbönd: Haraldur í holli með Westwood og Kim á æfingahring

Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr GR, lék í dag æfingahring með Englendingnum Lee Westwood og Bandaríkjamanninum Michael Kim á Carnoustie vellinum fyrir Opna mótið sem hefst á morgun.

Haraldur er að sjálfsögðu fyrsti íslenski kylfingurinn í sögunni sem leikur á þessu móti en hann hefur vonandi náð að læra eitthvað af þessum frábæru kylfingum sem hann lék með í dag.

Lee Westwood var á sínum tíma efsti kylfingur heimslistans en þessi 45 ára gamli Englendingur hefur á sínum ferli sigrað á 23 mótum á Evrópumótaröðinni og 2 á PGA mótaröðinni. Westwood er einn allra besti kylfingur sögunnar sem hefur ekki náð að sigra á risamóti.

Michael Kim er 25 ára gamall kylfingur sem hefur undanfarin ár leikið á Web.com mótaröðinni í Bandaríkjunum. Hann gerði sér lítið fyrir og sigraði á móti helgarinnar á PGA mótaröðinni, John Deere Classic, og kemur því sjóðandi heitur inn í risamótið.

Blaðamaður Kylfings á Carnoustie, Páll H. Ketilsson, fylgdist með okkar manni leika æfingahringinn í dag og náði nokkrum góðum myndum og myndböndum af hollinu.


16. holan á Carnoustie.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is