Myndband: Skrautlegt par hjá Jason Day

Jason Day hefur leikið vel að undanförnu. Hann vann sitt fyrsta mót á PGA mótaröðinni í tæp tvö ár fyrir stuttu þegar að hann stóð uppi sem sigurvegari á Farmers Insurance mótinu. Nú um helgina var hann aftur í baráttunni, en náði aðeins að enda jafn í öðru sæti að þessu sinni.

Day var þremur höggum á eftir Ted Potter, Jr. þegar að hann hóf leik á 18. holunni í gær. Hann þurfti því á erni að halda, en holan er um 500 metra löng par 5 hola. 

Eftir flott upphafshögg reyndi Day að slá inn á flöt með dræver og tókst það ekki betur en svo að boltinn endaði úti í fjöru. Þaðan sló hann í glompu við flötina. Úr glompunni sló hann um fimm metra frá holunni og setti hann það pútt svo ofaní. 

Hann fékk því par á lokaholunni og tryggði sér annað sætið í mótinu. Lokaholan var því ansi skrautleg hjá Day og er best að sjá atburðarásina í myndbandinu hér að neðan.