Myndband: Sir Nick Faldo fer holu í höggi

Jim Nantz er ekki nafn sem margir kannast við, en hann er engu að síður virtur íþróttafréttamaður og hefur hann síðan árið 1990 aðallega fjallað um amerískan fótbolta, amerískan háskólakörfubolta og PGA mótaröðina. 

Nantz var með samkomu í gær og var Sir Nick Faldo á staðnum, en Nick Faldo er einmitt lýsandi á CBS Sport sjónvarpsstöðinni, líkt og Nantz.

Nantz er með eftirlíkingu af sjöundu holunni á Pebble Beach vellinum í garðinum hjá sér og fékk Faldo að spreyta sig aðeins á henni. Hann gerði sér lítið fyrir og fór holu í höggi, en myndbandið má sjá hér að neðan.

Nafn Faldo mun því verða grafið í stein sem er við hliðina á holunni. Hann kemst þá í hóp með mönnum eins og David Feherty, Brandt Snedeker og Tony Romo, en allir hafa þeir farið holu í höggi á þessari holu.