Myndband: Samantekt frá lokahring Brooks Koepka

Brooks Koepka sigraði á sínu fyrsta risamóti í gær þegar hann stóð uppi sem sigurvegari á Opna bandaríska meistaramótinu. Þetta er í sjöunda skipti í röð sem sigurvegarinn á risamóti er að ná sér í sinn fyrsta risatitil. Koepka var að taka þátt í Opna bandaríska í fimmta sinn, en hans besti árangur var árið 2014, þegar hann endaði jafn í 4. sæti. 

Koepka lék frábærlega á lokahringnum, en mikill vindur var á Erin Hills vellinum í gær, ólíkt því sem var fyrstu þrjá dagana. Hann kom í hús á fimm höggum undir pari og endaði því á samtals 16 höggum undir pari, sem er jöfnun á meti Rory McIlroy á lægsta skori miðað við par. 

Hringurinn í gær byrjaði vel hjá Koepka, en hann nældi sér í tvo fugla strax á fyrstu tveimur holunum. Næsti fugl kom á 8. holunni en þar setti Koepka niður tæplega 11 metra pútt. Eini skolli hringsins kom á 10. holunni en Koepka bætti fyrir það með þremur fuglum á síðustu fimm holunum og tryggði sér þar með sigurinn.

Samantekt frá hringum hjá Koepka má sjá í myndbandinu hér að neðan.