Myndband: Phil Mickelson dæmdi á sig tvö vítishögg

Það eru ekki nema þrjár vikur síðan að Phil Mickelson púttaði bolta á hreyfingu á Opna bandaríska meistaramótinu og hafa margir kylfingar tjáð sig um það mál og jafnvel gengið svo langt að segja að hann hafi svindlað.

Nú er hann aftur kominn í fréttirnar fyrir það að brjóta reglur golfsins. Hann er á meðal keppenda á Greenbrier mótsinu sem klárast nú í kvöld.

Á lokahringnum lenti hann í því að slá utan brautar út í þykkan karga. Hann gerðist sekur um að bæta meinta högglínu þegar að hann steig niður hátt gras sem var fyrir framan hann. Í þetta skiptið dæmdi hann vítið á sig sjálfur og hlaut hann tvö vítishögg fyrir.

Myndband af atvikinu má sjá hér að neðan.

Hann endaði mótið jafn í 65. sæti eftir að hafa leikið lokahringinn á 74 höggum eða fjórum höggum yfir pari.