Myndband: Nýliðarnir slógu heimsmet

Fyrir ekki svo löngu síðan birti Kylfingur myndband frá því að Englendingar settu heimsmet en aldrei áður höfðu fjórir einstaklingar leikið eina holu á jafn stuttum tíma. Ian Poulter, Tyrrell Hatton, Matthew Southgate og Matthew Fitzpatrick voru í liði Englendinga sem setti heimsmetið en metið var 32,7 sekúndur.

Á dögunum reyndu Tom Lovelady, Lanto Griffin, Andrew Yun og Stephan Jaeger, fjórir nýliðar á PGA mótaröðinni, við heimsmetið á 17. holu Palm Desert Country Club sem er par 5 hola. Reglan er sú að sami kylfingur má ekki slá tvö högg í röð þannig að ef fjórði kylfingurinn missir af stuttu færi þarf næsti að vera tilbúinn.

Það var hins vegar ekki vandamál fyrir nýliðana sem slógu metið í fyrstu tilraun. Nýja metið var 30,16 sekúndur.

Strákarnir voru hins vegar ekki búnir að segja sitt síðasta því þeir reyndu aftur og gerðu enn betur: 27,88 sekúndur. Hér fyrir neðan er hægt að sjá myndband af atvikinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is