Myndband: Albatross hjá Harris English

Það var mikið um fína drætti á fyrsta degi Players meistaramótsins sem hófst í gær. Ryan Moore gerði sér til að mynda lítið fyrir og fór holu í höggi á hinni frægu 17. holu.

En Moore var ekki sá eini sem sló algjört draumahögg því Bandaríkjamaðurinn Harris English sló ofan í á par 5 holu í tveimur höggum.

Höggið kom á 11. holunni sem er rúmlega 490 metra löng. Eftir upphafshöggið var English 215 metra frá holunni og endaði boltinn í miðri holu. Auðveldur albatross og fór hann úr því að vera á einu höggi yfir pari í að vera á tveimur höggum undir pari.