Molinari: Ég hefði aldrei trúað þessu í apríl

Francesco Molinari vonast til að klára tímabilið á Evrópumótaröðinni með stæl þegar lokamót tímabilsins fer fram dagana 15.-18. nóvember í Dubai.

Fyrir lokamótið er Molinari með nokkuð örugga forystu á stigalistanum en auk hans getur félagi hans, Tommy Fleetwood, fagnað stigameistaratitlinum. Aðrir kylfingar eru of langt frá efstu sætunum og eiga því ekki möguleika.

Molinari sagði á blaðamannafundi fyrir mótið að hann hefði ekki trúað því í apríl að hann væri í þessari stöðu en hann hefur verið í mögnuðu formi undanfarna mánuði.

„Það er mögnuð tilfinning að vera hérna í forystu á Race to Dubai listanum. Þetta er ný staða fyrir mig þar sem ég hef aldrei verið þar áður,“ sagði Molinari og hélt áfram.

„Þetta þýðir auðvitað að ég hef átt frábært tímabil. Ég hefði aldrei getað giskað á að ég yrði í þessari stöðu núna ef þú hefðir sagt mér frá því í apríl eða maí á þessu ári, en þetta hefur verið magnað sumar og toppnum var náð í Ryder bikarnum.“

Lokamót Evrópumótaraðarinnar hefst sem fyrr segir á fimmtudaginn og lýkur á sunnudaginn. Jon Rahm hefur titil að verja í mótinu en Tommy Fleetwood varð stigameistari í fyrra.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is