Mesta áhorf í fimm ár

Það ætti ekki að hafa farið framhjá neinum að Tiger Woods lenti í 2. sæti á Valspar Championship mótinu síðastliðna helgi og sýndi þar með að hann er alls ekki dauður úr öllum æðum. Eins og eðlilegt er vekur Tiger ávallt mikla athygli þegar hann mætir á völlinn. Hins vegar eru sumir sem segja að áhorf á PGA mótaröðina hafi ekkert dalað þrátt fyrir mikla fjarveru Tiger síðastliðin ár.

NBC sjónvarpsstöðin í Bandaríkjunum hefur nú birt áhorfstölur frá síðustu helgi og samkvæmt þeim hefur áhorfið á PGA mót ekki verið meira í næstum fimm ár, ef frá eru talin risamót. Svo mikil var aukningin á áhorfinu að 190% fleiri horfðu á lokahring Valspar mótsins nú í ár heldur en í fyrra.

Þegar öll mót önnur en risamót á síðastliðnum fimm árum eru skoðuð hefur aðeins lokahringurinn á Players Championship árið 2013 verið með meira áhorf en var nú um helgina. Það ætti kannski ekki að koma á óvart því þá var það einmitt Tiger sem vann mótið.

Hvað sem menn segja um að ungu kylfingarnir sjái um að halda áhorfinu uppi þá er ljóst að það kemst enginn með tærnar þar sem Tiger hefur hælana. Hann mætir aftur til leiks um helgina á Arnold Palmer Invitational mótinu og verður gaman að sjá hvort áhorfið verði enn meira en um síðustu helgi.