Meistaramótin: Ólafur Björn á 65 höggum á Nesinu

Meistaraflokks kylfingar Nesklúbbsins hófu leik í gær á Meistaramóti klúbbsins. Góð skor litu dagsins ljós en alls léku fjórir kylfingar í karlaflokki á pari eða betra skori.

Í karlaflokki er Ólafur Björn Loftsson (-7) með eins höggs forystu á Nökkva Gunnarsson (-6). Ólafur Björn fékk alls 8 fugla og einn skolla á hringnum á meðan Nökkvi var kominn 9 högg undir par eftir 17 holur en tapaði þremur höggum á lokaholunni.

Í kvennaflokki er Karlotta Einarsdóttir (+5) með tveggja högga forystu á Rögnu Kristínu Guðbrandsdóttur (+7). Karlotta hefur fagnað klúbbmeistaratitlinum tvö ár í röð og stefnir væntanlega á þann þriðja í ár.

Annar hringur mótsins fer fram í dag, fimmtudag. Öll úrslit er hægt að nálgast á golf.is.

Staða efstu kylfinga í karlaflokki: 

1. Ólafur Björn Loftsson, 65 högg (-7)
2. Nökkvi Gunnarsson, 66 högg (-6)
3. Steinn Baugur Gunnarsson, 70 högg (-2)

Staða efstu kylfinga í kvennaflokki:

1. Karlotta Einarsdóttir, 77 högg (+5)
2. Ragna Kristín Guðbrandsdóttir, 79 högg (+7)
3. Þyrí Valdimarsdóttir, 80 högg (+8)

Ísak Jasonarson
isak@vf.is