McIlroy vonsvikinn með annað sætið

Norður-Írinn Rory McIlroy endaði í öðru sæti á Omega Dubai Desert Classic eftir æsispennandi lokaholur. Haotong Li stóð uppi sem sigurvegari á nýju mótsmeti, 23 höggum undir pari, en McIlroy endaði höggi á eftir Li.

Þrátt fyrir góða spilamennsku í mótinu var McIlroy ekki sáttur með endasprettinn.

„Frá því að vera með tveggja högga forystu á 11. teig og að vera jafn eftir 15. holu, ég veit ekki, ég sló nokkur slæm högg og tók nokkrar slæmar ákvarðanir,“ sagði McIlroy á blaðamannafundi eftir mót.

„Ég var oftar en ekki að skilja boltann eftir röngu megin við holuna í innáhöggunum þannig að ég gat ekki verið ákveðinn í fugla púttunum. Ég hélt þó áfram allt til enda og fékk tvo fugla og gerði mitt besta.

Hann [Li] gerði hins vegar mjög vel og fékk þrjá fugla á síðustu fjórum holunum. Ég vildi bara að ég gæti fengið að spila nokkrar af holunum aftur.“

Þrátt fyrir vonbrigði dagsins er McIlroy samt sem áður búinn að leika hreint út sagt frábært golf síðustu vikur eftir að hafa snúið til baka eftir meiðsli. McIlroy er nú búinn að leika 8 golfhringi á tveimur vikum og er samtals á 40 höggum undir pari.

„Ef einhver hefði sagt við mig í byrjun árs að ég kæmi til baka og endaði í þriðja og öðru sæti í fyrstu tveimur mótunum hefði ég tekið því. Ég var hins vegar í stöðu til að vinna í bæði skiptin þannig að það er erfitt að kyngja því.

Með mitt keppnisskap þá er ég mjög vonsvikinn núna. Mig langaði að vinna. Mig langar alltaf að vinna en ég lék bara ekki nógu vel þegar ég þurfti á því að halda.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is