McIlroy verður ekki meðlimur á Evrópumótaröðinni á næsta ári

Norður-Írinn Rory McIlroy verður ekki meðlimur á Evrópumótaröð karla árið 2019 en hann ætlar að einbeita sér að PGA mótaröðinni.

Þetta sagði McIlroy á þriðjudaginn fyrir lokamót tímabilsins á Evrópumótaröðinni og tjáði blaðamönnum að hann myndi bara taka þátt í tveimur mótum á Evrópumótaröðinni á fyrri helming tímabilsins.

Helsta ástæðan fyrir þessu er sú að búið er að færa Players mótið frá maí til mars og PGA meistaramótið frá ágúst til maí. Á móti hefur BMW PGA meistaramótið, eitt stærsta mót tímabilsins á Evrópumótaröðinni, verið fært frá maí til september.

„Þetta er vegna breytinganna,“ sagði McIlroy. „Ég þarf ekki að staðfesta þátttöku mína í neinum mótum þangað til í maí þannig að ég mun ekki spila í neinu Evrópumóti. Ég mun spila í heimsmótunum og risamótunum [sem telja á stigalista mótaraðarinnar] en Evrópumótaröðin hefst ekki fyrr en í júlí.“

McIlroy sagði að sú staðreynd að Ryder bikarinn fer ekki fram á árinu hafi gert ákvörðunina auðveldari.

„Ég byrja árið í Bandaríkjunum og þar verður áherslan mín þangað til í ágúst og ég mun skoða mín mál þá.

Mig langar að spila á móti bestu kylfingum heims í hverri viku og þau mót eru að mestu leyti í Bandaríkjunum. Ef ég ætla að berjast um sigur í risamótum og reyna koma mér aftur í efsta sæti heimslistans þá verð ég að gera þetta.“

Ísak Jasonarson
isak@vf.is