McIlroy staðfestir þátttöku sína á Honda Classic

Norður-Írinn Rory McIlroy staðfesti í dag þátttöku sína á Honda Classic mótinu sem fer fram í febrúar á næsta ári á PGA mótaröðinni. McIlroy er nú búinn tilkynna þátttöku sína á nokkrum mótum og er ljóst að hann verður kominn í gott leikform áður en Masters mótið fer fram í apríl.

McIlroy hefur verið frá vegna meiðsla í nokkrar vikur en hann er þó farinn að æfa á fullum krafti. Þegar hann snýr aftur í keppnisgolfið á næsta ári verður nóg um að vera hjá þessum fyrrum besta kylfingi heims.

McIlroy byrjar tímabilið á Abu Dhabi HSBC mótinu sem fram fer 18.-21. janúar og leikur svo á Omega Dubai Desert Classic mótinu viku seinna.

Því næst leikur hann á AT&T Pebble Beach Pro/Am mótinu 8.-11. febrúar, Genesis Open viku seinna og Honda Classic mótinu 22.-25. febrúar. Í mars leikur hann svo að minnsta kosti á Arnold Palmer Invitational og Valspar Championship og því allt í allt á 7 mótum áður en Masters mótið fer fram í apríl. Þá eru heimsmótin tvö ekki talin með sem fara fram á þessu tímabili en McIlroy á enn eftir að staðfesta þátttöku sína á þeim mótum.

Það verður því fróðlegt að fylgjast með McIlroy á næsta ári en hann náði sér aldrei á skrið í ár vegna meiðsla.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is