Lydia Ko með nýjan þjálfara og kylfubera

Fyrrum efsta kona heimslistans, Lydia Ko, verður með í sínu fyrsta móti á árinu þegar hún verður á meðal keppenda á ISPS Handa Women's Australian Open mótinu. Á undirbúningstímabilinu hefur Ko bæði skipt um þjálfa og kylfubera, annað árið í röð.

Þegar Ko mætti til leiks í sama mót í fyrra var hún nýbúin að skipta um þjálfara, kylfubera og gera nýjan kylfusamning við PXG. Árið í fyrra var fyrsta árið síðan 2012 sem hún vann ekki LPGA mót og því margir sem settu stórt spurningarmerki við að breyta svo miklu milli tímabila.

Hún hefur ekki látið það hafa mikil áhrif á sig því hún hefur ráðið nýjan þjálfara og heitir hann Ted Oh. Þau hafa unnið saman fimm daga vikunnar síðan í byrjun janúar. 

Nýji kylfuberinn heitir Jonny Scott og hefur hann verið kylfuberi um árabil, síðasta hjá Karrie Webb.

Það verður því gaman að fylgjast með Ko um helgina, en Ólafía Þórunn er einnig á meðal keppenda.