Lydia Ko hannar sína eigin fatalínu

Fremsti kvenkylfingur heims, Lydia Ko, tilkynnti í dag 3 ára samning sinn við fatamerkið  McKayson. Í samningnum felst að Ko fær að hanna sína eigin fatalínu sem hún mun frumsýna á ISPS Handa Australian Open í febrúar.

Ko fer því inn í nýtt ár með nýjan kaddý, þjálfara, kylfur og í nýjum fötum en auk þess að hafa gert samning við McKayson samdi Ko við Ecco Golf. Hún mun klæðast skóm frá fyrirtækinu næstu árin.

„Það eru einungis fjögur ár frá því ég gerðist atvinnukylfingur og því er það mikill heiður að fá að hanna mína eigin fatalínu á þessum tíma ferilsins,“ sagði Ko.

Lyda Ko varð efsti kylfingur heims aðeins 17 ára gömul eða árið 2015. Í dag hefur hún sigrað á 14 mótum á LPGA mótaröðinni, þar af á tveimur risamótum.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is