LPGA: Young Ko fær verðlaun fyrir bestan árangur nýliða

LPGA mótaröðin tilkynnti í dag að Jin Young Ko fengi Louise Suggs Rolex verðlaunin fyrir bestan árangur nýliða á tímabilinu. Ko er það langt á undan Georgia Hall þegar fjögur mót eru eftir að hún mun alltaf enda í efsta sæti óháð útkomu lokamótanna.

Ko hefur sigrað tvisvar á LPGA mótaröðinni á stuttum ferli. Hún sigraði á LPGA Keb Hana Bank meistaramótinu í fyrra án þess að vera meðlimur á mótaröðinni og tryggði sér þar með keppnisrétt. Í ár sigraði hún svo á ISPS Handa Women's Australian Open.

Ko hefur endað 11 sinnum í einu af 10 efstu sætunum á árinu og hefur þénað rúma milljón dollara.

Verðlaunin verða afhent þann 15. nóvember næstkomandi en þá viku fer lokamót tímabilsins, CME Group Tour Championship mótið, fram.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is