LPGA: Tvær jafnar á toppnum fyrir lokahringinn

Þegar einum hring er ólokið á Hugel-JTBC LA Open mótinu eru það þær Jin Young Ko og Moriya Jutanugarn sem deila efsta sætinu. Þær eru báðar á níu höggum undir pari, tveimur höggum á undan næsta kylfingi.

Það var Ko sem átti besta hring gærdagsins, en hún kom í hús á 66 höggum, eða fimm höggum undir pari. Hún fékk sex fugla, einn skolla og restina pör.

Á meðan lék Jutanugarn, sem var í forystu fyrir hringinn í gær, á 70 höggum, eða einu höggi undir pari. Hún byrjaði daginn á því að fá skramba á fyrstu og skolla á sjöttu, en náði með frábærri spilamennsku á síðustu 12 holunum að komast undir par á hringnum.

Inbee Park er ein í þriðja sæti á sjö höggum undir pari. Hún lék á tveimur höggum undir í gær.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.


Moriya Jutanugarn.