LPGA: Sei Young Kim sigraði á ótrúlegu skori

Það var hin suður-kóreska Sei Young Kim sem stóð uppi sem sigurvegari á Thornberry Creek LPGA Classic mótinu sem lauk í gær. Hún endaði mótið á samtals 31 höggi undir pari sem verður að teljast hreint út sagt ótrúlegt.

Kim lék hringina fjóra á 63 (-9), 65 (-7), 64 (-8) og 65 (-7) höggum. Í öllu mótinu tapaði hún aðeins tveimur höggum og kom það á öðrum degi mótsins er hún fékk tvöfaldan skolla á 17. holunni.

Í öðru sæti varð Carlota Ciganda. Hún endaði á 22 höggum undir pari eða níu höggum á eftir. Alla jafna hefði það eflaust verið sigurskorið en ekki í þetta skiptið.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.