LPGA: Ólafía Þórunn lék þriðja hringinn á 71 höggi

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn Kristinsdóttir lék í dag þriðja hringinn á Marathon Classic mótinu sem er hluti af LPGA mótaröðinni.

Ólafía Þórunn lék á pari vallarins og er því enn á 4 höggum undir pari í mótinu. Eftir þrjá hringi er Ólafía jöfn í 39. sæti.

Á hring dagsins fékk Ólafía alls 4 fugla og 4 skolla en spilamennska hennar var nokkuð sveiflukennd. Hún hitti alls 8 brautir í upphafshöggum sínum og 12 flatir í tilætluðum höggafjölda. Þá púttaði hún 30 sinnum líkt og í gær.

Brooke M. Henderson er í forystu fyrir lokahringinn en hún er á 11 höggum undir pari, höggi á undan Angela Stanford og Brittany Lincicome.

Lokahringur mótsins fer fram á morgun, sunnudag.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.


Skorkort Ólafíu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is