LPGA: Ólafía nánast örugg áfram eftir frábæran endasprett

Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, GR, gulltryggði sig nánast í gegnum niðurskurðinn á Meijer LPGA Championship mótið í dag með mögnuðum endaspretti eftir erfiðan dag. Ólafía Þórunn lék síðustu þrjár holurnar á hring dagsins á 3 höggum undir pari og er jöfn í 41. sæti þegar margir kylfingar eiga eftir að ljúka leik á öðrum hringnum.

Ólafía var á þremur höggum undir pari eftir fyrsta hringinn og í góðum málum. Hún byrjaði þó ekki nógu vel í dag og var búin að tapa þremur höggum strax eftir 7 holur. Næstu 8 holur voru svo stöðugar þar til hún fékk frábæran örn á 16. holu.

Tvö högg undir pari hefði líklega komið Ólafíu áfram en fugl á 18. holu nánast gulltryggði henni öruggt sæti í mótinu um helgina þar sem um 70 efstu kylfingarnir komast áfram og hún er núna í 41. sæti.

Ólafía hefur undanfarnar vikur kastað frá sér góðum tækifærum á að komast áfram á LPGA mótaröðinni en svaraði því frábærlega í dag og sýndi úr hverju hún er gerð.


Skorkort Ólafíu Þórunnar.

Hér er hægt að sjá stöðuna í mótinu.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is