LPGA mótaröðin hefst viku fyrr árið 2019

Mótaskrá LPGA mótaraðarinnar fyrir árið 2019 var birt á fimmtudaginn. Nokkrar breytingar eru á mótaskránni frá fyrri árum.

Helst ber að nefna að mótaröðin fer fyrr af stað en undanfarin ár. Fyrsta mót tímabilsins hefst 17. janúar og fer fram í Flórída en ekki á Bahama eyjum seinna í mánuðinum. Bahama mótið, sem var einmitt fyrsta mót Ólafíu Þórunnar Kristinsdóttur fyrir tæpum tveimur árum, er ekki lengur hluti af mótaröðinni.

Alls fara fram 33 mót á tímabilinu á LPGA mótaröðinni auk Solheim bikarsins þar sem 12 bestu kylfingarnir frá Bandaríkjunm og Evrópu mætast.

Mótin fara fram í 15 fylkjum víðsvegar um Bandaríkin og í 12 mismunandi löndum.

Atvinnukylfingurinn Ólafía Þórunn, GR, er með takmarkaðan þátttökurétt á mótaröðinni eftir frekar slakan árangur á síðasta tímabili. Hún mun skrá sig til leiks í flest mót og mun væntanlega komast inn á nokkur mót yfir tímabilið.

Hér er hægt að sjá mótaskrá 2019 tímabilsins á LPGA mótaröðinni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is