LPGA: Lexi Thompson leiðir fyrir lokadaginn

Þriðji hringur Meijer LPGA Classic mótsins, sem er hluti af LPGA mótaröðinni, var leikinn í Michigan fylki í Bandaríkjunum í gær. Fyrir daginn var Brooke Henderson í forystu á samtals 12 höggum undir pari. Lexi Thompson náði hins vegar að stela sætinu af henni með hring upp á 64 högg (-5) og situr nú ein í efsta sæti á samtals 15 höggum undir pari. 

Lexi lék mjög stöðugt golf í gær, en á hringnum fékk hún 6 fugla, einn skolla og restin pör. Fjórir kylfingar eru jafnir í öðru sæti, einu höggi á eftir Lexi, á samtals 14 höggum undir pari. Það eru þær Lee-Anne Pace, Sung Hyun Park, Jenny Shin og Brooke Henderson. 

Pace lék mjög vel í gær og kom í hús á 8 höggum undir pari. Hún fékk tvo erni á hringnum ásamt fimm fuglum og einum skolla. Park tapaði ekki höggi á sínum hring og Shin fékk fimm fugla í röð. 

Lokahringur mótsins fer fram á morgun.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.