LPGA: Korda með örugga forystu fyrir lokahringinn

Þriðji hringur á Honda LPGA var leikinn nú í morgun á Taílandi. Fyrir hringinn var það hin bandaríska Jessica Korda sem leiddi með fjórum höggum, eftir að hafa sett nýtt vallarmet í gær, með hring upp á 62 högg. Hún hélt áfram uppteknum hætti í dag og lék hringinn á fjórum höggum undir pari. Korda leiðir því með fjórum höggum fyrir lokahringinn, á samtals 20 höggum undir pari.

Hringurinn hjá Korda fór hægt af stað, en hún fékk 8 pör og einn skolla á fyrstu 9 holunum. Þá spýtti hún heldur betur í lófana og fékk 5 fugla í síðari 9 holunum og kom því í hús á fjórum höggum undir pari.

Moriya Jutanugarn situr ein í öðru sæti á 16 höggum undir pari. Hún lék mjög gott golf í dag og kom í hús á 7 höggum undir pari. Á hringnum fékk hún einn örn, átta fugla og þrjá skolla.

Það er svo Minjee Lee sem situr í þriðja sæti, einu höggi á eftir Jutanugarn, á samtals 15 höggum undir pari. Lee lék líkt og Korda á fjórum höggum undir pari í dag.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.


Moriya Jutanugarn.