LPGA: Jin Young Ko bar sigur úr býtum í Ástralíu

Það var Jin Young Ko sem stóð uppi sem sigurvegari á ISPS Handa Women's Australian Open mótinu sem lauk nú í nótt. Ko var í forystu frá fyrsta hring til þess síðasta og vann mótið að lokum með þremur höggum.

Fyrir lokahringinn var Ko með fjögurra högga forystu og var forysta hennar aldrei í hættu. Bilið fór minnst niður í tvö högg eftir níu holur, en tveir fuglar á síðari níu holunum tryggðu henni sigurinn. Hún lék lokahringinn á 69 höggum, eða þremur höggum undir pari og endaði mótið á 14 höggum undir pari.

Þremur höggum á eftir Ko varð Hyejin Choi. Choi lék á 67 höggum í dag, eða fimm höggum undir pari, þar af lék hún fyrri níu holurnar á fjórum höggum undir pari.

Þetta er annar sigur Ko á LPGA mótaröðinni, en fyrsti sigur hennar kom í október á síðasta ári.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.