LPGA: Inbee Park sigraði með yfirburðum

Inbee Park sigraði í gær á sínu 19. LPGA móti þegar að hún stóð uppi sem sigurvegari á Bank of Hope Founders Cup mótinu. Park endaði á að sigra með fimm höggum og má því segja að hún hafi haft töluverða yfirburði yfir aðra kylfinga.

Park lék frábært golf allt mótið og til marks um það þá fékk hún aðeins fimm skolla í öllu mótinu, og þar af enga síðustu tvo hringina. Á lokahringnum fékk hún aðeins fimm fugla og restina pör og kom því í hús á 67 höggum, eða fimm höggum undir pari.

Hún endaði mótið á samtals 19 höggum undir pari, en hringina lék hún á 68-71-63-67.

Þrjár enduðu jafnar í öðru sæti á 14 höggum undir pari. Það voru þær Marina Alex, Laura Davies, sem er 54 ára gömul, og Ariya Jutanugarn.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.