LPGA: Glæsileg byrjun hjá Ólafíu

Fyrsti hringurinn á Indy Women In Tech Championship mótinu var leikinn í Indiana fylki í Bandaríkjunum í dag, en mótið eru hluti af LPGA mótaröðinni. Ólafía Þórunn Kristinsdóttir, atvinnukylfingur úr GR, er á meðal þátttakenda og átti hún stórgóðan fyrsta hring.

Ólafía lék hringinn í dag á fimm höggum undir pari og situr jöfn í 8. sæti. Ólafía hóf leik á 10. braut í dag og lék mjög stöðugt og gott golf, en á hringum fékk hún sex fugla og aðeins einn skolla. Þar á meðal komu þrír fuglar í röð á holum 18, 1 og 2. Ólafía toppaði svo góðan hring með fugli á síðustu holu dagsins og endaði þar með á fimm höggum undir pari eins og áður sagði.

Það er Lexi Thompson sem leiðir eftir daginn á 9 höggum undir pari. Hún fékk á sínum hring 11 fugla og tvo skolla. Í 2. sæti er Þjóðverjinn Sandra Gal á 8 höggum undir pari og einu höggi á eftir, í þriðja sæti, er Kris Tamulis.

Hér má sjá stöðuna í mótinu.