LPGA: Brooke Henderson sigraði á Meijer LPGA Classic

Lokahringur á Meijer LPGA Classic mótinu, sem er hluti af LPGA mótaröðinni, fór fram í gær. Fyrir daginn var Lexi Thompson með eins höggs forystu á næstu fjóra kylfinga, á samtals 15 höggum undir pari. Það var hins vegar Brooke Henderson sem stóð uppi sem sigurvegari, en hún endaði á samtals 17 höggum undir pari. 

Brooke lék mjög stöðugt golf á lokahringum, en hún fékk á honum þrjá fugla og restin pör, og lék hann því á þremur höggum undir pari. Hún lauk því leik á samtals 17 höggum undir pari. Þetta er hennar fjórði sigur á LPGA mótaröðinni en fyrsti sigurinn á þessu ári. 

Jafnar í öðru sæti voru þær Michelle Wie og Lexi Thompson. Lexi náði sér ekki alveg á strik í gær, en lokahringurinn var hennar slakasti hringur og lék hún hann á parinu. Hún fékk á honum fjóra fugla, fjóra skolla og restin pör og lauk því leik á 15 höggum undir pari. 

Michelle Wie lék hringinn í gær á fjórum höggum undir pari og tapaði ekki höggi, en á hringnum fékk hún fjóra fugla og restin pör. Hún endaði því jöfn í öðru sæti á samtals 15 höggum undir pari.

Hérna má sjá lokastöðuna í mótinu.

Lexi Thompson endaði jöfn í öðru sæti.

Michelle Wie endaði ásamt Lexi Thompson í öðru sæti.