Lindsey Vonn: Tiger Woods er þrjóskur

Ein besta skíðakona heims, Lindsey Vonn, var með Tiger Woods í þrjú ár áður en þau hættu saman árið 2015. Sambandsslit þeirra var á góðu nótunum og hafði verið sameiginleg ákvörðun þeirra beggja.

Vonn var á dögunum í viðtali við Sports Illustrated þar sem hún ræddi um Vetrarólympíuleikana og þá var hún einnig spurð út í Woods.

„Ég elska hann og við erum enn góðir vinir,“ sagði Vonn. „Stundum vildi ég að hann hefði hlustað aðeins betur á mig en hann er mjög þrjóskur og vill fara sínar eigin leiðir. 

Ég vona að endurkoma hans gangi vel í þetta skiptið. Vonandi kemur hann til baka og fer aftur að vinna golfmót.“

Tiger Woods snýr aftur á PGA mótaröðina í lok janúar þegar Farmers Insurance mótið fer fram. Áður hafði hann leikið á sínu fyrsta móti í tæpa níu mánuði þegar hann keppti á Hero World Challenge.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is