Kylfingur á PGA mótaröðinni sakaður um svindl

Nokkrum tímum eftir Quicken Loans National mótið sem fór fram um helgina fór Joel Dahmen á Twitter og sakaði leikfélaga sinn, Sung Kang, um að hafa svindlað á lokahring mótsins.

Dahmen sakaði Kang um að hafa látið boltann falla ólöglega á 10. holu lokahringsins. Kang hafði slegið innáhögg sitt inn á par 5 holuna í vatn vinstra megin við flötina og var ágreiningur um hvar boltinn hefði farið inn í rauða svæðið. 

Kang reyndi að sannfæra Dahmen um að boltinn hefði farið í vatnið nálægt flötinni á meðan Dahmen hélt öðru fram. Kang lét á endanum boltann falla þar sem hann vildi og náði að bjarga pari á holunni.

Sung Kang lék mjög vel á lokahringnum og endaði í 3. sæti eftir að hafa komið inn á 64 höggum. Þá öðlaðist hann um leið þátttökurétt á Opna mótinu sem fram fer á Carnoustie seinna í mánuðinum.


Sung Kang.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is