Kylfingur á PGA mótaröðinni gerir lítið úr Öldungamótaröðinni

Það hefur vakið nokkra athygli undanfarna daga að Þjóðverjinn Bernhard Langer endaði ekki sem stigameistari á Öldungamótaröðinni þrátt fyrir hreint út sagt magnað tímabil.

Langer tók þátt í 21 móti, endaði 16 sinnum í topp-10 og sigraði á 7 mótum. Þrátt fyrir það náði Kevin Sutherland að stela stigameistaratitlinum af Langer með því að sigra á lokamóti tímabilsins.

Mikil umræða skapaðist um málið á Twitter og bentu sumir á að kerfið væri hreinlega gallað.

Bandaríkjamaðurinn Grayson Murray, sem sigraði á Barbasol Championship mótinu á PGA mótaröðinni í sumar, svaraði þá gagnrýnendum á einfaldan hátt: „Hverjum er ekki sama er spurningin... þessir kylfingar skiptu máli fyrir 10 árum.“

Murray hélt svo áfram í öðru tísti: „Þú munt aldrei sjá kylfinga á borð við Phil (Mickelson), Tiger (Woods) eða (Jim) Furyk leika á mótaröðinni! Mótaröðin er rekin í miklu tapi.“

Murray hefur nú eytt tístunum af Twitter síðu sinni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is