Kylfingar munu hafa 40 sekúndur til að slá á Opna austurríska mótinu árið 2018

Stjórnendur Evrópumótaraðarinnar hafa undanfarið verið duglegir að prófa ýmsar nýjungar þegar kemur að mótshaldi. Fyrr á þessu ári fór fram GolfSixes mótið, þar sem leiknar voru sex holur í hverri umferð og höfði kylfingar aðeins 40 sekúndur til að slá höggið, annars fengu þeir eitt högg í víti.

Nú hefur verið ákveðið að gera aðra tilraun og mun sú tilraun fara fram á Opna austurríska mótinu á næsta ári. Þar mun dómari ganga með hverjum ráshóp og taka tímann á hverju höggi hjá öllum kylfingum. Hver kylfingur mun hafa aðeins 40 sekúndur til þess að slá höggið og fari þeir yfir þann tíma verða þeir áminntir. Ef það endurtekur sig fá þeir eitt högg í víti í hvert sinn sem þeir fara yfir þessar 40 sekúndur.

Evrópumótaröðin áætlar að þetta muni flýta leik um 45 mínútur og þegar tillagan var rædd á fundi voru kylfingar mótaraðarinnar almennt mjög sáttir með þessa hugmynd.