Koepka þakkar kylfubera sínum fyrir

Það hefur líklega ekki farið framhjá neinum að Brooks Koepka sigraði á Opna bandaríska meistaramótinu sem lauk nú á sunnudaginn en þetta var annað risamót ársins og jafnframt annað árið í röð sem hann vinnur þetta mót.

Útlitið var ekkert sérstaklega gott eftir 22 holur í mótinu hjá Koepka. Hann var þá kominn sjö högg yfir par í mótinu og var í hættu á að komast ekki í gegnum niðurskurðinn. Með góðri spilamennsku náði hann aftur á móti að snúa við blaðinu með sex fuglum á næstu 14 holum og kom hann sér þannig aftur inn í mótið.

Eftir mótið sagði Koepka að hann ætti kylfubera sínum mikið að þakka en hann hafi stappað í hann stálinu á öðrum hring mótsins.

„Þegar við vorum komnir sjö yfir pari sagði hann við mig 'Taktu þig saman í andlitinu og komdu þér aftur inn í mótið. Við eigum ennþá möguleika' og hann hafði rétt fyrir sér.“

„Hann sagði einnig að ég yrði bara að taka þetta eitt högg í einu og bætti svo við að þetta yrði auðveldara, sem varð svo raunin, ég fékk þessa sex fugla seinni partinn á föstudeginum.“

Samband Koepka og kylfubera hans, Ricky Elliott, virðist vera frábært en Koepka kallar hann einn af sínum betri vinum.

„Ricky er satt best að segja einn af mínum betri vinum. Ég elskan þennan gaur endalaust og hann er ótrúlegur kylfuberi.“