Koepka kominn upp í 10. sæti heimslistans

Brooks Koepka flýgur upp um 12 sæti á nýútgefnum heimslista eftir frábæran sigur á öðru risamóti ársins, Opna bandaríska mótinu.

Bandaríkjamaðurinn stal senunni á lokahringnum og kom inn á 5 höggum undir pari og 16 höggum undir pari í heildina. Hann sýndi stáltaugar á lokaholunum þar sem hann fékk meðal annars þrjá fugla í röð á holum 14, 15 og 16.

16 högg undir pari var jafnframt jöfnun á mótsmeti sem Rory McIlroy setti árið 2011 á Congressional vellinum.

Koepka er nú kominn upp í 10. sæti heimslistans og er það hans besti árangur á ferlinum.

Af öðrum breytingum á heimslistanum ber helst að nefna að Hideki Matsuyama er kominn upp í 2. sætið og fer hann upp fyrir Rory McIlroy og Jason Day á nýjum lista. Sergio Garcia, sem sigraði á Masters mótinu fyrr á árinu, er nú kominn upp í 5. sæti.

Hér er hægt að sjá heimslistann í heild sinni.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is