Koepka getur jafnað við Spieth og Harrington

Bandaríkjamaðurinn Brooks Koepka er í leit að sínum þriðja risatitli í dag þegar lokahringurinn á PGA meistaramótinu fer fram á Bellerive vellinum í Bandaríkjunum.

Þrátt fyrir að hafa mögulega fengið óvenju litla athygli getur Koepka með sigri jafnað við magnaða kylfinga á borð við Nick Price, Padraig Harrington, Payne Stewart, Vijay Singh og Jordan Spieth sem allir unnu, eða hafa unnið, þrjá risatitla á sínum ferlum.

Koepka sigraði eftirminnilega á Opna bandaríska mótinu fyrr í sumar og varð þar með einungis sjötti kylfingurinn í sögu mótsins til að verja titilinn. Af einhverjum ástæðum hefur hann hins vegar ekki fengið sömu athygli og aðrir sambærilegir kylfingar en hann er til að mynda með fleiri risatitla en Jason Day, Dustin Johnson og Adam Scott.

Líklega telur þar mest að Koepka hefur í raun bara unnið eitt venjulegt mót á PGA mótaröðinni og það kom árið 2015 á Waste Management Phoenix Open. Þá hefur hann sömuleiðis sigrað á einu Evrópumóti sem kom árið 2014 á Turkish Airlines.

Koepka hefur hins vegar verið sjóðandi heitur í risamótunum undanfarin ár og komist í gegnum niðurskurðinn 17 sinnum í röð og endað í einu af 25 efstu sætunum í 13 skipti. Hann verður því að teljast sigurstranglegastur í kvöld en hann er með tveggja högga forystu fyrir lokahringinn.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is