Kelly Kraft ekki vinsæll hjá PETA

Kelly Kraft komst ekki í gegnum niðurskurðinn á RBC Heritage mótinu sem lauk í gær og var það að hluta til vegna þess að á 14. holunni á öðrum deginum fékk hann tvöfaldan skolla. Hann spilaði annan hringinn á 72 höggum, eða einu höggi yfir pari, og lék fyrstu tvo hringina samtals á einu höggi yfir pari. Niðurskurðurinn miðaðist við þá kylfinga sem voru á parinu eða betur og var hann því einu höggi frá því að komast áfram.

14. holan á Harbour Town vellinum er um 175 metra löng par 3 hola yfir vatn. Á holunni lenti Kraft í því að slá högg sem virtist stefna á flötina, en fór í fugl og beint ofaní vatn. Fuglinn var sem betur fer í lagi, en Kraft tapaði tveimur höggum á þessu óhappi.

Eftir hringinn bölvaði Kraft fuglinum og sagði að þetta hefði verið algjör óheppni.

Það var aftur á móti aðeins annar tónn í forseta dýraverndunarsamtakanna PETA, því hún sagði að það væri ánægjulegt að fuglinn væri í lagi og að Kraft hefði bara átt að spila betur á öðrum holum.

„PETA er ánægð að fuglinn er í lagi og þykir leitt að Kraft hafi ekki komist áfram, en það er ekki fuglinum að kenna. Hann hefði að sjálfsögðu komist áfram hefði hann spilað betur á öðrum holum, þannig æfa sig, æfa sig, æfa sig.“

Ekki víst að Kraft sé sammála þessum ummælum og spurning hvort að einhverjir eftirmálar verði af þessum máli milli Kraft og PETA.