Kaymer heldur PGA kortinu

Þjóðverjinn Martin Kaymer fær eitt tækifæri í viðbót til að sýna sitt rétta andlit á PGA mótaröðinni eftir fremur dapra spilamennsku á mótaröð þeirra bestu undanfarin ár.

Samkvæmt Golf Channel fær fyrrum besti kylfingur heims sérstaka undanþágu til að leika á mótaröðinni á næsta ári en hann náði ekki að leika í nógu mörgum mótum á síðasta tímabili vegna meiðsla í úlnlið.

„Ég hlýt sérstaka undanþágu þar sem ég var meiddur í töluverðan tíma,“ sagði Kaymer við Golf Channel. „Ég er mjög ánægður að hafa hlotið þá undanþágu, sérstaklega miðað við uppröðun mótanna á báðum mótaröðunum á næsta tímabili.“

Kaymer spilaði einungis í 11 mótum á síðasta tímabili vegna meiðsla en ætti að geta tekið þátt í lágmarksfjölda móta á næsta tímabili, sérstaklega þar sem fimm af stærstu mótum tímabilsins á Evrópumótaröðinni fara fram eftir lokamót tímabilsins á PGA mótaröðinni.

Kaymer er í 150. sæti heimslistans í dag eftir að hafa verið í efsta sætinu í nokkrar vikur árið 2011. Hann náði þó sínum besta árangri í langan tíma á Evrópumótaröðinni um helgina þegar hann endaði í 5. sæti á Turkish Airlines Open.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is