Karlalandsliðið hafði betur gegn Ítölum

Íslenska karlalandsliðið hafði í dag betur gegn landsliði Ítala í fyrsta leik liðanna í B-riðli á Evrópumóti karla í golfi. Leikurinn var jafn og spennandi en íslensku strákarnir höfðu á endanum betur, 3-2.

Henning Darri Þórðarsson og Björn Óskar Guðjónsson höfðu betur í fjórmenningsleiknum 1/0 og settu þar með tóninn. Rúnar Arnórsson tapaði sínum leik 2/1 og þá var leikurinn aftur orðinn jafn.

Aron Snær Júlíusson vann svo sinn leik, 1/0, áður en Gísli Sveinbergsson tryggði íslenska liðinu sigur, 2/1. Síðasti leikur liðanna skipti því ekki miklu máli en þar tapaði Bjarki Pétursson 2/0.

Íslenska liðið leikur á morgun, föstudag, gegn Írum í undanúrslitum B-riðilsins. Liðin sem enduðu í 9-16. sæti í höggleiknum leika í B-riðli og því geta íslensku strákarnir best endað í 9. sæti.

Hér er hægt að sjá úrslit allra leikja.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is