Justin Thomas og Kevin Kisner í veðmáli

Úrslit ameríska háskólafótboltans fara fram á morgun og er þetta einn stærsti íþóttaviðburður ársins í Bandaríkjunum. Í ár eru það lið Háskólans í Alabama og lið Háskólans í Gerorgíu sem leika til úrslita og ríkir mikill spenningur fyrir leiknum vestanhafs.

Þar sem margir af kylfingum PGA mótaraðarinnar léku fyrir háskóla áður en þeir gerðust atvinnumenn bíða margir spenntir fyrir þessum leik, þá sérstaklega ef fyrrverandi liðið þitt er að leika til úrslita. Það er einmitt málið hjá Justin Thomas og Kevin Kisner.

Justin Thomas spilaði fyrir Háskólann í Alabama í tvö tímabil, þar sem hann vann meðal annars landsúrslit háskólagolfsins. Á meðan lék Kevin Kisner fyrir Háskólann í Georgíu og varð einnig landsmeistari árið 2006.

Það var svo Justin Thomas sem birti myndband af sér á Twitter síðu sinni þar sem hann skoraði á Kisner í veðmál. Veðmálið hljómaði þannig að ef Alabama vinnur þá verður Kisner að spila í Alabama bol merktum Justin Thomas og ef Gerogía vinnur þá veðrur Thomas að spila í Georgíubol merktum Kevin Kisner.

Kisner var ekki lengi að taka þessu veðmáli og verður því gaman að fylgjast með næstu helgi hvor tapaði veðmálinu og hvernig þessir bolir verða.