Justin Thomas mun verja titil sinn á Sony Open

Margir af bestu kylfingum heims eru mættir til Hawaii þar sem Sony Open mótið fer fram á PGA mótaröðinni dagana 11.-14. janúar. Bandaríkjamaðurinn Justin Thomas hefur titil að verja en hann lék stórkostlegt golf í fyrra.

Heitasti kylfingur heims um þessar mundir, Dustin Johnson, er ekki meðal keppenda að þessu sinni sem gefur Thomas klárlega aukna möguleika á að verja titil sinn. Hins vegar eru kylfingar á borð við Jordan Spieth, Marc Leishman, Zach Johnson og Jason Dufner allir skráðir til leiks og má búast við að þeir veiti Thomas harða keppni.

PGA mótaröðin gaf út lista yfir líklegustu kylfinga til sigurs í móti helgarinnar og vekur athygli að Bandaríkjamaðurinn Brian Harman er þar efstur á lista. Harman er búinn að vera í topp-10 í fjórum síðustu mótum sínum og því mögulega bara spurning hvenær hann stendur aftur uppi sem sigurvegari á mótaröðinni.

Hér er hægt að sjá allar upplýsingar um mótið.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is