Justin Rose bjartsýnn þrátt fyrir erfiða helgi

Justin Rose tókst ekki að endurheimta efsta sæti heimslistans um síðustu helgi en slæm helgi kom í veg fyrir það. Hann lék síðustu tvo hringina á Arnold Palmer Invitational mótinu á 75 og 77 höggum og endaði því mótið jafn í 67. sæti.

Þar af leiðandi náði hann ekki að endurheimta efsta sætið sem Dustin Johnson hafði tekið af honum vikuna áður.

„Þetta var erfið helgi,“ lét Rose hafa eftir sér.

„Mér fannst ég allur aðeins úr takti. Ég var ekki að lesa flatirnar vel. Mér fannst ég ekki pútta illa en ég sá boltann bara ekki fyrir mér fara ofan í holuna. Það eru nokkrir hlutir sem ég þarf að vinna í en það er ekki endilega slæmt.“

Rose sagði einnig að augnablik eins og um síðustu helgi hjálpi sér að mæta enn sterkari til baka.

„Þetta hjálpar mér að vera þeim mun tilbúnari fyrir mótið núna um helgina því golf er ekki auðveld íþrótt og þú þarft að leggja á þig til að ná árangri og vera tilbúinn fyrir komandi átök.“