Jordan Spieth: „PGA meistaramótið verður erfiðast“

Jordan Spieth á um helgina möguleika á að verða yngsti kylfingur í sögunni til að ná feril-slemmunni, einungis 24 ára gamall. Sá draumur er hins vegar hægt og bítandi að renna út í sandinn, en Spieth er á þremur höggum yfir pari eftir þrjá hringi, 11 höggum á eftir efsta sætinu.

Spieth átti erfitt uppdráttar í byrjun mótsins og lék fyrstu tvo hringina á einu höggi yfir pari og tveimur höggum yfir pari. Hann náði að snúa hlutunum aðeins við á þriðja hringnum og fékk fimm fugla á níu holu kafla. Tvöfaldur skolli á síðustu holunni gerði það hins vegar að verkum að hann endaði hringinn á parinu og samtals á þremur höggum yfir pari.

Spieth var spurður að því hvort hann væri vonsvikinn yfir gengi hans á mótinu en hann kvaðst svo ekki vera.

„Augljóslega, þegar maður á ekki möguleika á að vinna mótið, er maður ekki að standa sig eins vel og maður ætti að gera. En vonbrigðin hefðu verið að fara heim eftir tvo daga, en ég sá bætingar í dag.“

Spieth sagði einnig að hann byggist við því að PGA meistaramótið yrði erfiðasta mótið fyrir hann til að vinna. 

„Ég held að PGA meistaramótið verði erfiðast fyrir mig. Ef við lítum yfir feril minn þá held ég að ég muni spila þetta mót verr en hin þrjú risamótin, einfaldlega vegna þess hvernig það er sett upp. Ég held að uppsetningin á hinum þremur mótunum henti mínum leik betur. Ég tel mig þó geta spilað hvar sem er og unnið hvar sem er. Þetta er bara spurning um að allt smelli saman á réttum tíma.“