Jordan Spieth ekki við fulla heilsu, en segist tilbúinn

Hero World Challenge mótið hefst á morgun og er Jordan Spieth mættur til leiks, en hann er þó ekki alveg við fulla heilsu. Langt ferðalag frá Ástralíu virðist hafa sett smá strik í reikninginn, en Spieth keppti í Ástralíu um síðustu helgi.

Spieth talaði við blaðamenn í gær, en þurfti aftur á móti að fresta blaðamannafundi sínum í dag. Á fundinum í gær sagði Spieth að honum liði betur en hann hljómaði.

„Mér líður ágætlega, þetta er bara hálsinn á mér. Mér líður mun betur en ég hljóma. Á meðan mér líður ágætlega þá skiptir ekki máli hvernig ég hljóma eða lít út. Ég var veikur fyrir nokkrum vikum síðan og ég var bara ekki alveg búinn að ná mér.“