Jon Rahm nýliði ársins á Evrópumótaröðinni

Sir Henry Cotton verðlaunin voru veitt í morgun, en verðlaunin eru veitt nýliða ársins á Evrópumótaröðinni. Það var að þessu sinni Jon Rahm sem var kosinn nýliði ársins og varð hann í leiðinni fimmti Spánverjinn til þess að hljóta þennan titil. 

Síðast var það Pablo Larrazábal sem var nýliði ársins, en það var árið 2008. Hinir spánverjarnir eru þeir Ganzalo Fernandez-Castano (2005), Sergio Garcia (1999) og Jose Maria Olazabal (1986).

Rahm hefur átt frábæru gengi að fagna á árinu þar sem hann vann meðal annars sitt fyrsta PGA mót í janúar þegar að hann sigraði á Farmers Insurance mótinu. Rahm var fljótur að setja mark sitt á Evrópumótaröðina, því það tók hann ekki nema tvö mót að sigra mót. Mótið var Dubai Duty Free Irish Open og sigraði hann mótið með sex höggum. 

Fyrir lokamót ársins situr Rahm í fjórða sæti stigalista mótaraðarinnar og er hann einnig í fimmta sæti heimslistans. Hann er því vel að þessu kominn.