Jon Rahm frábær á fyrsta hring CareerBuilder Challenge mótsins

CareerBuilder Challenge mótið hófst á PGA mótaröðinni í dag. Mótið fer fram í Kaliforníu og er leikið á þremur völlum. Vellirnir eru Stadium völlurinn, Nicklaus Tournament völlurinn og LaQuinta völlurinn. Það er Jon Rahm sem er í forystu eftir fyrsta hringinn, en hann lék hreint út sagt frábært golf og kom í hús á 10 höggum undir pari.

Rahm lék á LaQuinta vellinum í dag. Hann byrjaði með miklum látum, en á fyrstu sjö holunum fékk hann fjóra fugla, tvö pör og einn glæsilegan örn, sem má sjá í myndbandinu hér að neðan. Hann var því kominn sex högg undir par eftir sjö holur.

Á síðari níu holunum fékk hann fjóra fugla til viðbótar og lauk því leik á 62 höggum, eða 10 höggum undir pari og er eftir daginn einn í efsta sætinu.

Rahm er samt bara einu höggi á undan næstu mönnum, en þeir Austin Cook og Andrew Landry léku báðir á níu höggum undir pari.

123 af þeim 155 kylfingum sem hófu leik léku á undir pari í dag, en þar sem leikið er á þremur völlum eru fleiri með í mótinu en vanalega.

Hérna má sjá stöðuna í mótinu.