Jon Rahm fjórði yngsti til að komast í þriðja sæti heimslistans

Greint var frá því í morgun að Jon Rahm hefði komist upp í þriðja sæti heimslistans eftir að hafa lent í öðru sæti á Sentry Tournament of Champions sem lauk í nótt. Rahm hefur risið hratt á listanum og til að mynda var hann í 135. sæti fyrir ári síðan.

Með því að komast upp í þriðja sæti listans í dag varð Rahm fjórði yngsti kylfingurinn til þess að komast þetta hátt á listanum, en hann varð 23 ára gamall 10. nóvember síðastliðinn.

Eins og sést á myndinni hér að ofan hafa aðeins Tiger Woods, Rory McIlory og Jordan Spieth komist þetta hátt og verið yngri. 

Rahm hefur aðeins verið atvinnumaður í 18 mánuði. Á þeim stutta tíma hefur hann sigrað á þremur mótum, tveir af sigrunum komu á Evrópumótaröðinni, og hann hefur 14 sinnum endað á meðal 10 efstu. Hann var einnig kosinn nýliði ársins á Evrópumótaröðinni í fyrra, þrátt fyrir að vera með í aðeins fimm mótum. 

Það verður því gaman að fylgjast með þessum unga Spánverja. Sjálfur segist hann ekki mikið vera að stressa sig á því að komast í efsta sæti heimslistans, en það sé samt markmiðið.

„Vonandi get ég haldið áfram að spila vel og þá kannski kemst ég í efsta sæti heimslistans. Ef það á ekki að gerast, þá gerist það ekki, en það er samt sem áður markmiðið hjá mér.“