Johnson skiptir um kylfusvein eftir 15 ára samstarf við Green

Leiðir kylfusveinsins Damon Green og Zach Johnson á golfvellinum skilja eftir um 15 ára samstarf. Samkvæmt fréttamiðlinum TCN á Johnson að hafa látið Green vita á dögunum að samstarfi þeirra væri nú lokið.

Saman unnu þeir Green og Johnson 12 sinnum á PGA mótaröðinni og þar af tvisvar á risamóti. Johnson sigraði fyrst á Masters mótinu árið 2007 og árið 2015 á Opna mótinu eftir bráðabana gegn Marc Leishman og Louis Oosthuizen.

Samkvæmt TCN er gert ráð fyrir því að Johnson ráði Brett Waldman á pokann en hann hefur meðal annars borið kylfurnar fyrir Charley Hoffman. Green, sem er 58 ára gamall, ætlar hins vegar að verja tíma með fjölskyldu sinni næstu vikur og mánuði áður en hann leitar sér að nýju starfi.

Ísak Jasonarson
isak@vf.is