Johnson og Kisner jafnir á toppnum

Þeir Zach Johnson og Kevin Kisner eru í forystu á sex höggum undir pari þegar Opna mótið er hálfnað. Johnson átti einn af hringjum dagsins en hann kom í hús á 67 höggum á meðan Kisner lék á 70 höggum.

Eftir að hafa fengið skolla á fyrstu holu í dag tapaði Johnson ekki höggi og fékk fimm fugla. Hann lék því á fjórum höggum undir pari. Kisner var kominn á þrjú högg undir par á hringnum og samtals á átta högg undir par áður en hann fékk tvöfaldan skolla á lokaholunni og lauk því leik á einu höggi undir pari.

Tommy Fleetwood átti besta hring dagsins, 66 högg eða sex högg undir pari. Hann er eftir daginn jafn í þriðja sæti á samtals fimm höggum undir pari ásamt þeim Pat Perez og Xander Schauffele.

Haraldur Franklín Magnús náði sér ekki á strik í dag og lék á 78 höggum. Nánar má lesa um hringinn hans hérna.

Hérna má svo sjá stöðuna í mótinu.