Johnson, McIlroy og Spieth taldir líklegastir til sigurs á Opna bandaríska meistaramótinu

Það er varla að fyrsta risamót ársins sé búið þegar menn eru farnir að tala um risamót númer tvö. Næst á dagskrá er það Opna bandaríska meistaramótið, en mótið mun fara fram dagana 14. til 17. júní næstkomandi og mun þá Brooks Koepka freista þess að verja titil sinn frá því í fyrra.

Að þessu sinni verður leikið á Shinnecock Hills vellinum. Völlurinn er staðsettur um 150 kílómetra austur af New York borg. Þetta verður í fjórða skiptið sem Opna bandaríska meistaramótið er leikið á þessum velli, en síðast fór það fram þar árið 2004.

Þrátt fyrir að rúmlega tveir mánuðir séu í mótið eru fjölmiðlar vestanhafs nú þegar farnir að spá fyrir um hvaða kylfingar eru líklegastir til sigurs á mótinu. Eftir fyrsta risamót ársins eru það þrír kylfingar sem þykja hvað líklegastir til sigur, en það eru þeir Dustin Johnson, Jordan Spieth og Rory McIlroy. Allir hafa þeir stuðulinn 10/1. Sigurvegari Masters mótsins, Patrick Reed er í 11. sæti yfir líklegustu kylfinga, en stuðullinn á honum er 30/1.

Koepka, sem sigraði í fyrra, er með stuðulinn 40/1, en hann hefur verið að glíma við meiðsli undanfarnar vikur og var til að mynda ekki með á Masters mótinu. 

Hér að neðan má sjá þá 10 kylfinga sem þykja hvað líklegastir:

Dustin Johnson - 10/1
Jordan Spieth - 10/1
Rory McIlroy - 10/1
Justin Thomas - 12/1
Jason Day - 14/1
Rickie Fowler - 16/1
Jon Rahm - 16/1
Justin Rose - 20/1
Tiger Woods - 25/1
Hideki Matsuyama - 25/1