Johnson búinn að jafna Furyk

Dustin Johnson, sem sigraði á Sentry Tournament of Championship um helgina, er nú búinn að jafna risameistarann Jim Furyk yfir fjölda sigra á PGA mótaröðinni. Báðir eru þeir með 17 sigra en líklegt þykir að Johnson muni bæta við sig nokkrum titlum á komandi árum.

Furyk og Johnson eru í 48. sæti yfir flesta sigra á PGA mótaröðinni frá upphafi. Sam Snead trónir á toppnum en hann sigraði á 82 mótum á sínum ferli. Tiger Woods er annar með 79 sigra og Jack Nicklaus í því þriðja með 73 sigra.

Johnson hefur nú sigrað á 5 mótum á síðasta ári og er með góða forystu í 1. sæti heimslista. Neikvæðu fréttirnar fyrir keppinauta hans á mótaröðinni eru þær að hann telur sig eiga mikið inni.

„Þessi byrjun lofar góðu en ég þarf að halda áfram að æfa vel. Mér líður eins og ég eigi mikið inni en það er allt á réttri leið.“

Flestir sigrar á PGA mótaröðinni frá upphafi:

1. Sam Snead, 82 sigrar
2. Tiger Woods, 79 sigrar
3. Jack Nicklaus, 73 sigrar
4. Ben Hogan, 64 sigrar
5. Arnold Palmer, 62 sigrar
6. Byron Nelson, 52 sigrar
7. Billy Casper, 51 sigur
8. Walter Hagen, 45 sigrar
9. Phil Mickelson, 42 sigrar
10. Cary Middlecoff, 40 sigrar

Ísak Jasonarson
isak@vf.is